Kirkjan

En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gjöra langt fram yfir allt það, sem vér biðjum eða skynjum, honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú um öll æviskeið, öld eftir öld. Amen. Efesusbréfið 3: 20-21

Trú kirkjunnar

Fíladelfía er fyrst og fremst kristin kirkja. Fíladelfía getur skrifað undir allar grunntrúarjátningar kristinnar kirkju í gegnum aldirnar og tekur mikinn þátt í samkirkjulegu starfi.

Það má segja að megináhersla okkar sé sú að trúin sé ekki innantómt form eða venja.

Við trúum á Guð sem heyrir bænir, við fylgjum Jesú sem huggar þá sem eru sorgbitnir, gefur þeim von sem skortir von og þeim tilgang sem eiga ef til vill allt en skortir þó það sem öllu máli skiptir. Við trúum á Heilagan anda, sem er vinur á trúargöngunni dag hvern og gefur okkur kraft til að takast á við áskoranir og vera verkfæri Guðs til þess að þjóna öðrum.

Við trúum því að allir menn þurfi á Guði að halda og án hans séu þeir eins og reköld á hafi. Við trúum því að Jesús Kristur sé eina leiðin til Guðs og menn þiggi frelsi og líf frá honum án verðskuldunar, algjörlega af náð. Við trúum því að það sé rangt að dæma fólk og við viljum taka vel á móti öllum, eins og Jesús gerir.

Uppbygging og stjórnun kirkjunnar

Fíladelfía er kirkja fólksins, það kann að hljóma eins og slagorð, en veruleikinn er sá að það eru meðlimir Fíladelfíu sem eru allt í öllu. T.d. eru sjálfboðaliðar á vegum kirkjunnar taldir í hundruðum og starfið er að mestu rekið með gjöfum meðlima.

Kirkjan er þannig byggð upp að allar meiriháttar ákvarðanir eru teknar af meðlimum hennar á aðalfundi og meðlimir kirkjunnar kjósa sér stjórn og leiðtoga.

Verslunin Jata

Jatan bókaverslun hefur sama opnunartíma og safnaðarskrifstofan auk þess sem opið er eftir samkomur á sunnudögum og í tengslum við mót og tónleika í kirkjunni.

Í Jötunni er hægt að kaupa kristilega tónlist og fallega gjafavöru auk þess sem þar er að finna gott úrval kristilegra bóka.

Facebooksíða verslunarinnar Jötu

Safnaðarskrifstofa Fíladelfíu

Sími safnaðarskrifstofu Fíladelfíu er 535-4700 og netfangið filadelfia@filadelfia.is.Skrifstofan er opin frá kl. 10:00-16:00 þriðjudaga til fimmtudaga og 10:00-14:00 á föstudögum. Gengið er inn í gegnum verslunina Jötu.

Á safnaðarskrifstofu fer fram fjölbreytt starf enda hafa allar deildir kirkjunnar tengingu þangað inn varðandi skipulagningu, upplýsingagjöf, samskipti o.fl.

Hægt er að hafa samband við safnaðarskrifstofu ef fólk vantar upplýsingar um starfsemi kirkjunnar, vill skrá sig í kirkjuna eða óska eftir viðtali við forstöðumann. Skrifstofustjóri kirkjunnar er Fanny Kristín Tryggvadóttir.

Sagan okkar

Hvítasunnukirkjan á Íslandi er ekki mjög gömul. Árið 1921 komu hjón til Íslands, send af Hvítasunnukirkjunni Smyrna í Gautaborg. Hann var norskur og hét Erik Åsbö en hún var sænsk og hét Signe Åsbö. Þau ferðuðust um landið og predikuðu að það væri ekki nóg að vera kristinn að nafni til, kristið líf snerist um að fylgja kennslu Jesú Krists og Biblíunnar. Þau predikuðu að Guð elskaði mannkynið og hefði opnað því leið til að eiga samfélag við hann. Þau kenndu einnig að það sem Guð gerði á dögum frumkristninnar gæti hann gert í dag.

Hvítasunnumenn biðja þannig oft fyrir þeim sem eru sjúkir og margir hafa læknast. Það er hluti af trú Hvítasunnumanna að gjafir Heilags anda, sem segir frá í Nýja testamentinu, svo sem tungutal og að Guð tali beint til fólks, séu virkar í dag.

Kirkjan breiddist út um landið og árið 1936 voru stofnaðir söfnuðir á Akureyri og í Reykjavík. Í dag eru Hvítasunnukirkjur hringinn í kringum landið. Hvítasunnuhreyfingin varð auðvitað ekki til á Íslandi. Við upphaf 20. aldar átti sér stað trúarleg vakning víðsvegar um heiminn. Fólk fór að upplifa nærveru Guðs sterkar en áður, það fann meira fyrir krafti Guðs og fann sig knúið til þess að boða trúna öllu mannkyni. Oft er upphafið kennt við atburði sem áttu sér stað í Azusa stræti í Los Angeles 1906, en tveimur árum áður höfðu svipaðir atburðir gerst í Wales.

Þetta markaði upphaf þeirrar greinar kristinnar kirkju sem vaxið hefur hraðast sl. 100 ár. Hvítasunnuhreyfingin var því ekki til árið 1900 en árið 2015 voru hvítasunnumenn allt að 500 milljónir í heiminum auk þess sem áherslur og kenningar hvítasunnuhreyfingarinnar hafa haft áhrif á margar aðrar kirkjur.

Smellið hér til að horfa á stutta heimildarmynd um sögu Fíladelfíu

Mánaðarlegir bæklingar Fíladelfíu

Í hverjum mánuði kemur út nýr bæklingur þar sem kennslusería mánaðarins er kynnt. Þar koma einnig fram þeir viðburðir sem framundan eru, fréttir af því sem hefur verið að gerast sem og dagskrá mánaðarins.

Smelltu hér til að skoða bæklinga