Starfið

Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti, sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika. Efesusbréfið 4:16

Barnastarf (Krakkafíló)

Á hverjum sunnudegi fer fram skemmtilegt barnastarf fyrir börn á aldrinum 3-12 ára.

Börnin mæta með fullorðnum inn um innganginn undir rampinum sem liggur að aðalinngangi kirkjunnar. Þar eru börnin skráð og við tekur skemmtileg dagskrá sem stendur jafn lengi og fullorðinssamkoman á efri hæðinni. Gert er ráð fyrir að foreldrar sæki svo börn sín í lok samkomunnar.


0-3 ÁRA

Yngsti aldurshópurinn er í raun í umsjá foreldra sinna, enn sem komið er.

Við höfum útbúið góða aðstöðu aftast í aðalsalnum þar sem foreldrar og börn koma saman og hafa þægilegt afdrep meðan á samkomu stendur.

Börnin hafa leikföng og félagskap hvert af öðru en foreldrarnir missa ekki af samkomunni því stór gluggi er á herberginu sem gefur gott útsýni inn í samkomusalinn auk þess sem hátalar sjá til þess að hægt er að hlusta á það sem er í gangi í salnum. Í herberginu eru þægileg sæti og hentugt að gefa börnum sem eru á brjósti. Einnig er aðstaða til að skipta á bleyjum.

Gengið er inn í herbergið inn úr anddyri aðalsalarinns.


3-7 ára

Barnastarfið hefst um leið og samkoman í aðalsalnum.

Foreldrar mæta með börnin við inngang á miðhæðinni, beint undir inngangnum í aðalsal, hvít hurð á hlið rampsins sem liggur að aðaldyrunum.

Dagskráin byrjar á frjálsum leik, en börnin geta valið um föndur, opið rými, kubba og fleira. Að leik loknum syngjum við hress og skemmtileg lög, við biðjum og fáum kennslu úr Biblíunni. Að kennslu lokinni setjumst við niður og ræðum það sem fram hefur farið.


8-12 ára

Dagskrá hefst um leið og samkoman í aðalsalnum.

Foreldrar mæta með börnin við inngang á miðhæðinni, beint undir inngangnum í aðalsal, hvít hurð á hlið rampsins sem liggur að aðaldyrunum.

Krakkarnir færa sig niður í kjallara þar sem unglingaaðstaðan er. Við byrjum á hressum lögum, við biðjum og svo er kennsla sem krakkarnir ræða síðan í umræðuhópum. Að þessu loknu er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, borðtennis, fóltboltaspil, föndur og margt fleira.

Unglingastarf

Unglingastarf Fíladelfíu kallast í daglegu tala "Fíló." Unglingarnir í kirkjunni eru hress hópur sem hittist oft. Fasti punkturinn í vikunni eru unglingasamkomur sem eru alla föstudaga kl 20.00 í hliðarsal kirkjunnar. Gengið er inn um tröppuinnganginn aftan til. Allir unglingar eru hjartanlega velkomnir.

Facebooksíða unglingastarfsins

Heimasíða unglingastarfsins - www.filo.is

Fíló +

Fíló + er starf fyrir ungt fólk á mennta- og háskólaaldri. Hist er í kaffisalnum á miðhæðinni á miðvikudögum klukkan 19:30.

Á þessum fundum er farið í ýmiskonar áhugaverð viðfangsefni sem snerta ungt fólk. Lögð er áhersla á að byggja góðan grunn að framtíðinni, uppgötva og efla gjafir og hæfileika þátttakenda. Eftir hverja stund er yfirleitt eitthvað áhugavert gert t.d. Borðað saman, farið í bíó, spilað, farið á ísrúnt os.frv.

Upplýsingar um viðburði má finna á Facebook hóp Fíló+

Royal Rangers

Royal Rangers eru alþjóðleg, kristileg, skátahreyfing. Starfið er fyrir alla krakka og unglinga, frá 3. bekk og uppúr. Þau hittast á miðvikudögum kl 18.00 í Kefas í Kópavogi. Þau fá staðgóða og hagnýta kennslu, læra jafnt um kristna trú og um útivist. Þau fara reglulega á mót jafnt innanlands og utan. Skemmtilegt starf sem gefur börnunum mikið.

https://www.royalrangers.is

Alþjóðakirkjan

Um árabil hefur verið starfandi enskumælandi söfnuður í Fíladelfíu, nýlega bættist einnig við spænskumælandi hópur.

Enskumælandi kirkjan kemur saman á hverjum sunnudegi kl 14.00 og heldur samkomu. Söfnuðurinn er mjög fjölbreyttur og lifandi, flestir sem koma eru kristnir, en fólk af ýmsum trúarbrögðum kemur líka, stöku Íslendingur finnur sig heima þar og eru allir velkomnir. Til að fylgjast með enskumælandi söfnuðinum er best að finna okkur á facebook undir: Reykjavik International Church

Spænskumælandi söfnuðurinn kemur saman klukkan 13.00 á Sunnudögum og heldur samkomur. Aftur er auðveldast að finna okkur á facebook, undir: Iglesia Hispánica en Filadelfia.

Samverur eldri borgara

Yfir vetrartímann eru samverur fyrir eldri borgara, 60 ára og eldri, 1. og 3. fimmtudag í mánuði kl. 12.00.

Á samverunni er boðið upp á hádegishressingu ásamt kaffi og með því. Auk þess eru sungnir sálmar og flutt hugvekja eða vitnisburður. Þetta eru ljúfar stundir, opnar öllum 60 ára og eldri.

Alfa námskeið

Alfa er 10 vikna námskeið um kristna trú sem er kennt í flestum kirkjudeildum og út um allan heim.

Námskeiðið fjallar um grunnatriði kristinnar trúar, en gerir það á mjög gagnvirkan hátt. Við byrjum á því að borða saman, fáum skemmtilega kennslu um eitthvað grundvallarmál, tökum kaffihlé og svo eru umræður í minni hópum.

Alfa er frábær leið til að fá svör við spurningum, skoða trúna með gagnrýnum augum og kynnast fólki. Námskeiðið hefur notið afar mikilla vinsælda og mörg hundruð manns hafa sótt það í Fíladelfíu á síðustu árum.

Námskeiðsgjald miðast við kostnaðarverð og hefur síðustu ár verið kr. 8500 fyrir allar 10 vikurnar.

Upplýsingar um næsta námskeið fást hér á síðunni og á skrifstofu Fíladelfíu í síma 5354700

Smelltu hér til að horfa á kynningarfyrirlestur um Alfa

Samfélagshópar

Samfélagshópur er hópur af fólki sem kemur reglulega saman í heimahúsum til þess að tengjast betur, byggjast upp í trúnni og ræða málefni þar að lútandi.

Fjöldi samfélagshópa eru starfandi í Fíladelfíu og við hvetjum alla til þess að prufa að taka þátt í slíku hópastarfi.

Hóparnir er yfirleitt frekar litlir þ.e. 12 einstaklingar eða færri. Stærð hópana gefur tækifæri á persónulegu andrúmslofti og oft myndast mikil og góð vinátta í hópunum. Hóparnir eru ólíkir. Sumir eru kynjaskiptir, sumir eru fyrir alla fjölskylduna, sumir eru hjónahópar o.s.frv.

Hversu oft hittast samfélagshópar: Algengt er að hóparnir hittist aðra hverja viku.

Hvað er gert í samfélagshópum: Það er fyrst og fremst ánægjulegt að vera í heimahópum og þar kemur maður til að eiga góðan og uppbyggjandi tíma með vinum. Hóparnir eru ólíkir en eftirfarandi er algeng uppbygging á hópakvöldi:

- Oftast er byrjað á léttum veitingum og almennu spjalli

- Í flestum hópunum fara svo fram umræður um efni sem tengist kennsluseríum

- Yfirleitt er endað á því að biðja saman

Hægt er að óska eftir því að komast í samfélagshóp á upplýsingaborðinu eftir samkomu eða með því að hringja á skrifstofu Fíladelfíu í síma: 5354700

Videodeild Fíladelfíu

Frá árinu 2003 hafa samkomur Fíladelfíu verið sendar út í hljóði og mynd á netinu, í kirkjunni er starfandi fjölmiðlunardeild sem kallast Ljósbrot og sér um þennan þátt starfsins.

Ljósbrot hefur einnig staðið fyrir upptöku á þáttum sem sýndir hafa verið í sjónvarpi, tekið upp viðtöl, reynslusögur og búið til ýmiskonar myndbönd sem nýst hafa í kristilegu starfi.

Nánar hér

Bænastarf

Mikil áhersla er lögð á að öflugt bænastarf sé í kirkjunni enda er stundum talað um bænina sem "andardrátt trúarinnar."

Bænastundir er á ýmsum tímum í kirkjunni en auk þess er beðið í samfélagshópum og við ýmis önnur tækifæri þar sem fólk kemur saman. Oftast er boðið upp á fyrirbæn undir lok samkomu. Öllum er frjálst að þiggja slíka fyrirbæn.

Upplýsingar um bænastundir má finna í "hvað er framundan" hlutanum á forsíðu www.filadelfia.is. Bænastundir fara yfirleitt fram í hliðarsal aðalsalarins uppi eða í bæna/fundarherberginu á miðhæðinni. Alltaf er þó gengið inn upp stigan á miðhæðinni.

Tónlistarstarf

Hvítasunnukirkjan hefur alla tíð verið þekkt fyrir öflugt og vandað tónlistarstarf. Fyrir utan lifandi tónlistarstarf á samkomum hefur kirkjan hefur staðið fyrir útgáfu tónlistar og tónleikahaldi sem notið hefur mikilla vinsælda.

Gleði einkennir tónlistarlíf kirkjunnar enda er mikil og almenn þátttaka í tónlistarstarfinu og algengt er að fólk taki vel undir í söngnum.


Tónlistarstjórinn

Óskar Einarsson hefur verið tónlistarstjóri Fíladelfíu frá því árið 1992.

24 ára gamall byrjaði Óskar að þjálfa sönghóp kirkjunnar og var ráðinn sem tónlistarstjóri ári síðar. Óskar hefur stýrt fjölda metnaðarfullra tónlistarverkefna á vegum kirkjunnar auk hefðbundinnar stjórnunar á kórnum.

Óskar hefur haldið fjölda gospelnámskeiða víða um land og hefur hann með starfi sínu aukið veg og vinsældir gospeltónlistar á Íslandi.


Jólatónleikar

Jólatónleikar Fíladelfíu, fyrir þá sem minna mega sína hafa verið haldnir frá árinu 1999.

Jólatónleikarnir hafa notið mikilla vinsælda og síðan árið 2001 hafa þeir verið teknir upp og sýndir í sjónvarpinu á aðfangadagskvöld. Fyrst á RÚV en nú síðast á Stöð 2.

Fjöldi þekktra tónlistarmanna hafa komið fram með kórnum í gegnum árin svo sem Björgvin Halldórsson, Hera Björg, Garðar Cortes, Jóhanna Guðrún, Sigrún Hjálmtýrsdóttir, Stefán Hilmarsson, Guðrún Gunnarsdóttir, Eiríkur Hauksson, Egill Ólafsson, Eyþór Ingi, Páll Rósinkrans og svo mætti lengi telja.