Hvítasunnukirkjan Fíladelfía

Af öllu hjarta ég þrái

1. Af öllu hjarta ég þrái að öðlast meira Guð,
af andans krafti þínum og meiri lífsfögnuð.
Ég loforðanna minnist, sem lausnarinn fyrr gaf
og lít, sem við mér blasi, Guðs náðardjúpa haf.

Kór: Djúp sem regin haf, djúp sem regin haf
dunar enn sú náð, er Kristur Jesús gaf.
Ó, hlýð á hennar nið, þann himinstrauma klið.
Drekkum allt hvað tekur djúpið náðar við.

2. Sjá skýin enn þau koma með skúr á þyrsta jörð.
Hvort skyldi þá ei líka fá blessun Drottins hjörð?
Vér höfum þegar fundið Guðs heilagt regnið sætt,
en  hjartað þráir meira, sem er af Guði fætt!

3. Sjá himindaggir falla og hlíðin verður græn,
mig helgir straumar fylla - því Drottinn svarar bæn.
Ég greini´ að trúarblómin, þau gróa í minni sál
og Guði er vígt að öllu, já, bæði hjarta og mál.

4. Svo komi andans skúrir, þær komi einmitt nú,
Ó, Kristur Jesús auktu því börnum þínum trú.
Að hundruðin og þúsund sig hólpin megi fá
og hrein í þínu blóði - og loforð Andans sjá.

A. J. Kelley – Ásmundur Eiríksson

Hljóðdæmi