Hvítasunnukirkjan Fíladelfía

Allt eins og blómstrið eina

1. Allt eins og blómstrið eina
upp rís á sléttri grund.
Fagurt með frjóvgun hreina,
fyrst um dags morgunstund.
Á snöggu augabragði afskorið verður fljótt.
Lit og blöð niður lagði, líf mannlegt endar skjótt.

2. Svo hleypur æskan unga
óvissa dauðans leið.
Sem aldur og ellin þunga,
allt rennur sama skeið.
Innsigli engir fengu upp á lífs stundar bið,
en þann kost undir gengu allir, að skiljast við.

3. Ég veit minn ljúfur lifir
lausnarinn himnum á.
Hann ræður öllu yfir
einn heitir Jesús sá.
Sigrarinn dauðans sanni, sjálfur á krossi dó,
og mér svo aumum manni eilíft líf víst til bjó.

4. Með sínum dauða´ hann deyddi,
dauðann og sigur vann.
Makt hans og afli eyddi,
 ekkert mig skaða kann.
Þó leggist lík í jörðu, lifir mín sála frí.
Hún mætir aldrei hörðu, himneskri sælu í.

5. Ég lifi´ í Jesú nafni,
í Jesú nafni´ ég dey.
Þó heilsa´ og líf mér hafni,
hræðist ég dauðann ei.
Dauði, ég óttast eigi afl þitt né valdið gilt.
Í Kristí krafti´ ég segi: ,,Kom þú sæll, þá þú vilt.“

Hallgrímur Pétursson.

Hljóðdæmi