Hvítasunnukirkjan Fíladelfía

Ég þekki leið sem liggur

1. Ég þekki leið, sem liggur
að ljóssins fögru höll,
hún liggur gegnum klungur
og örðugleikans fjöll.
En aldrei mun sá villast,
er veg þann velur sér,
:,: sá vegur Jesús er. :,:

2. Ég þekki frið, sem varir,
þótt annað farist allt,
ei fyrir skóga græna
né gull það hnoss er falt.
Þann frið, sem hjartað þráir,
minn faðir gefur mér.
:,: Sá friður Jesús er. :,:

3. Ég þekki kraft, sem læknar
hvert hulið hjarta sár,
sem hvíld og svölun veitir,
og þerrar harma tár,
sem upp frá þessum heimi
til himins lyftir mér.
:,: Sá kraftur Jesús er. :,:

4. Ég þekki ljós, er ljómar
svo hreint og himin bjart,
sem hrekur burt hvern skugga
og heljar myrkrið svart.
Já, alla leið til himins
það ljósið lýsir mér.
:,: Það ljósið Jesús er. :,:

Hildur Elmers - Sigurbjörn  Sveinsson.

Hljóðdæmi