Hvítasunnukirkjan Fíladelfía

Ég veit af lindinni

1. Ég veit af lindinni´ er líður
og líknar vegmóðri drótt.
Sá straumur stilltur og blíður,
er stöðvast ei dag eða nótt:
Frá Golgata heilögum hæðum
rann hjartablóð frelsarans.
Ó, streymi það eins í æðum
mér, aumingja syndarans!

Kór: Hún hvítfágar iðrandi hjörtu
sú heilaga náðarlind,
frá lausnarans sárum hún líður
og laugar burt alla synd.

2. Og hvar sem lindin sú líður
allt lífið brosir þér við.
Í vor snýst veturinn stríður
og voldug sorgin í frið.
Á beru ófrjóvu engi,
um eyðimarkanna sand
grær Edens unaðsríkt vengi,
sem er Guðs heilaga land.

3. Og þegar, harmþrungna hjarta,
þú hallast að þeirri lind.
Það líknandi lífsflóðið bjarta
þig laugar hreinan af synd.
Þar læknast þín svíðandi sárin
og sjónina blindir fá
og laugast titrandi tárin
af trega þrunginni brá.

4. Þú sál, er friðvana flögrar
um fold og úthöfin blá.
Ó, flýt þér, er auðnin þér ögrar,
í elskunnar dreyralind þá.
Til allra iðrandi manna
þar unun streymir og fró,
og þá munt þú sannlega sanna,
að sál þín finnur þar ró!

Herman Steffensen – Þýðandi óþekktur

Hljóðdæmi