Hvítasunnukirkjan Fíladelfía

Frá fjallsins hæð

1. Frá fjallsins hæð, í heiðum sólarljóma,
hann horfir yfir Jerúsalemsborg,
En musterið, og mennt og þjóðarblóma
sér meistarinn með djúpri hjartasorg.
Hann horfir gegnum hina fögru gylling,
sem hylur eymd og smán og bitra nauð.
Þar hafna menn í sinni syndaspilling
þeim sönnu gæðum, sem hann oft þeim bauð.

2. Og Jesús grét, svo hjartahreinn og blíður,
hans hjarta brann af eldi kærleikans.
Hans eigin þjóð í syndasorta bíður
og sinnir ekki náðarboðskap hans.
Að eyrum berast öldur hárra hljóma
frá hátíðlegum dans og veislusal,
en meðan kvöldið deyfir dagsins ljóma,
hann dapur reikar yfir Kedrons dal.

3. Jerúsalem, þú öll munt lögð í eyði,
því óðum fjölga syndir þínar hér.
Mót þér svo ljúft minn líknarfaðm ég breiði,
þú lokar þínum dyrum fyrir mér.
Ó, Jerúsalemsborg, þú sjálf þig blekktir,
ég bauð þér eilíft líf og frið og skjól.
Vitjunartíma þinn þú ekki þekktir,
og því er horfin gæfu þinnar sól.

Conrad Björkman - Sigurbjörn Sveinsson.

Hljóðdæmi