Fangelsi - múrar stoppa ekki kraftinn
Postulasagan er spennandi bók. Jesús felur litlum hópi lærisveina sinna verkefni; að boða fagnaðarerindið allt til endimarka jarðarinnar. Hópurinn var lítill, naut engra réttinda sem trúfélag, hafði lítil fjárráð og ekkert miðlægt skipulag. Þetta var óvinnandi verk, algjörlega ómögulegt að því er virtist. Þegar sagan hefst eru lærisveinarnir samankomnir í Jerúsalem, fáliðaðir og í vörn. Þegar bókinni lýkur er kirkjan komin vestur til Rómar, norður til Makedóníu, er á hraðri leið austur í átt að Indlandi og er komin suður til Eþíópíu. Hvernig var þetta eiginlega hægt? Engin tækni á við í dag, engir vélknúnir fararskjótar, bara hópur af fólki sem elskar Jesú og framgengur í krafti Heilags anda. Kirkja, sem elskar Jesú og framgengur í krafti Heilags anda, er óútreiknanlegt afl. Kirkjan er ekki byggð á einu réttu skipulagi eða ákveðnu formi. Hins vegar þegar við hvert og eitt erum vitni þar sem við erum, framgöngum í trú og leiðumst af Heilögum anda, gerir Guð kraftaverk. Þangað skulum við stefna og þangað skulum við fara.