Hvítasunnukirkjan Fíladelfía

Mig ber heimleiðis

1. Mig ber heimleiðis þótt sortinn sólu hylji
og þótt sé hér tíðum erfið ganga vor.
Mig ber heimleiðis því herrans er það vilji
og mín huggun er að feta í hans spor.

Kór: Óðum styttist leiðin löng, Hallelúja!
Hátt ég lofa minn Guð með söng.
Senn ég skundað hefi skeiðið á enda,
við hvert skref  leiðir Jesús mig.

2. Mig ber heimleiðis þótt oft sé örðug ganga
og þótt oft ég heyri mótgangsstorma gný.
Mér er Drottinn nær um daga þrautalanga
og í dauðans hættum æ til hans ég flý.

3. Mig ber heimleiðis þá eyðimörk mér ægir
þegar eyðisanda brennir sólin heit.
Því minn herra Jesús hættum frá mér bægir
og ég hef til fylgdar kærra vina sveit.

4. Mig ber óðum heim frá eyðimerkurgeimi,
þá um eilífð hvíld fær þreyttur andi minn.
Þótt mér ævigangan erfið sé í heimi
mér því unaðslegri verður himinninn.

Kór: Óðum styttist leiðin löng, Hallelúja!
Hátt ég lofa minn Guð með söng.
Senn ég skundað hefi skeiðið á enda.
Ó, hvort skulum vér mætast þar?

Nathanael Cronsioe – Sigríður  Halldórsdóttir.

Hljóðdæmi