Hvítasunnukirkjan Fíladelfía

Ó, Jesús minn, Jesús

1. Ó, Jesús minn, Jesús, lát hjarta og hug
þér helgast æ meira og auk þú mér dug,
að gleyma mér sjálfum, en guðseðlið þrá,
svo gjöri´ ég það eitt sem þín náð hvílir á.

Kór: :,: Að hljóta þinn kraft, að hlýða´ á þitt tal
að hefja þitt merki, það er mitt val. :,:

2. Ég keppi´ ei um ríki né kórónu gulls,
en kýs það, sem meira´ er, að öðlast til fulls
hinn Heilaga Anda, sem upphefur þig
og innlífast þér, sem að dóst fyrir mig.

3. Of stór engin fórn er, ef flytur hún mig
eitt fótmál þér nær til að vegsama þig,
í lífi og starfi svo líkist ég þér,
sem leiðst bæði´ og reist upp til frelsunar mér.

4. Svo verði þá helgað þér hjartað mitt innst,
Og hverfi öll vantrú, í sálinni´ er finnst
því hvað þýddi´ að vona í himininn inn,
ef hefði´ ég ei samband við lausnara minn?

Emil Gustavsson - Kristín Sæmunds.

Hljóðdæmi